Færsluflokkur: Bloggar

Ekki hissa á árangrinum

Það er alveg ótrúlegt hvað tækninni fleytir fram og það nú í bréfdúfum.  Fyrir nokkrum árum bjó ég í Namibíu og þurfti að senda hlut í viðgerð.  Í póst var lítil myndavél send til Suður-Afríku og komst hún þangað á þremur dögum.  Eftir viðgerð var hún send með pósti til mín aftur.  Nú brá svo við að hún var 54 daga á leiðinni til baka.   Þá hefði ég vilja hafa svona eina af þessum hraðskreiðu bréfdúfum.
mbl.is Dúfan var fljótari en tölvupósturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur

Það er ekki lítill heiður og hróður sem okkur íslendingum hlotnast þegar snillingur eins og Einar fær svona mikla viðurkenningu á heimsvísu. Hann hefur sýnt og sannað að hér á landi eru einstaklingar sem skara fram úr og ekki bara innanlands. Því miður er íslenska þjóðin upptekin af því að rífa niður en hér sjáum við ljósið til að byggja upp. Til hamingju Einar Stefánsson
mbl.is Einar Stefánsson heiðraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðleikar

Nú líður hver mánuðurinn á fætur öðrum í kreppunni og stöðugt berast fréttir af fyrirtækjum sem leggja upp laupanna. Skipafélög hafa líka verið að gefast upp og önnur dregið verulega úr umsvifum sínum. Risarnir í flutningageiranum hafa til að mynda keypt sér pláss í skipum samkeppnisaðila sinna til hagræðinga. Pöntunarbækur skipasmíðastöðva hafa þynnst en fjöldi afpantanna á nýsmíðum hafa verið gerðar. Nú sjáist fleiri skipum lagt vegna verkefnaskorts úti í heimi.Hvaða áhrif skyldi kreppan hafa á útgerð og siglingar okkar íslendinga?

Kreppa skipasmiða hafa orðið til þess að ekki varð neitt úr smíði tveggja togara fyrir Þormóð Ramma en það er ekki sú kreppa sem hefur áhrif á seinkun afhendingar á nýju varðskipi en þar eru ríkisfjármál orsakavaldur. Ekki eru heldur líkur á smíði nýrrar ferju í stað Herjólfs alveg í bráð. Allar þessar hremmingar vekja þá upp spurninguna hvernig íslensku kaupskipaútgerðunum reiði af í holskeflunni. Bæði skipafélögin hafa orðið fyrir búsifjum ef svo má að orði komast. Flutningarnir hafa dregist saman og haf bæði félögin fækkað skipum.

Samskip hefur aðeins tvö skip í áætlunarsiglingum til Reykjavíkur í stað fjögurra áður. Eimskip tilkynnti nýlega að þeir myndu fækka skipum um þrjú og eftir því sem ég komst næst munu þetta hafa verið Lómur, Blikur og Celia. Celia mun nú vera í Færeyjum og liggja þar verkefnalaus. Erfiðleikar EimskipafélagsiGoðafoss-20080821-22ns hljóta að vera margfalt meiri en Samskipa. Það ætla ég sökum þess að á síðustu þremur árum létu þeir smíða 6 ný skip í Noregi, þeir misstu álflutningana frá Straumsvík og síðan féll ábyrgð á félagið sem tilkomin var vegna Avion keðjunnar. Fjárfestingar erlendis brugðust og svona mætti lengi áfram halda. Eimskip hefur ávallt verið talið með traustustu fyrirtækjum Íslandssögunnar en því miður hefur þetta breyst umtalsvert á ekki mögrum mánuðum.  Það er sannarlega von mín að þessu "óskabarni þjóðarinnar" takist að setja stefnuna frá gjaldþroti en vissulega má gera ráð fyrir að mikill vandi sé á höndum þeirra sem við stýrið standa.


Verndarar heimsins

Þeir lesendur sem þetta lesa og leggja stund á að þvælast niður á bryggjur til að skoða skip eru eflaust oft pirraðir á því að stór hluti hafna er orðinn afgirtur og engum ætlað að þvælast þar um.  Þetta er afskaplega bagalegt fyrir okkur sem viljum fara hafnarrúnta eins oft og kostur er.  En af hverju er þetta orðið svona í okkar litla þjóðfélagi?  Það verður að skrifa þetta á Bush kallinn í henni stóru Ameríku þar sem ríkistjórn hans fór fram af miklum þrýstingi gegn þjóðum heims um að þær verðu hafnir sínar fyrir hryðjuverkamönnum sem gætu hugsanlega rölt um borð í skip á leið til USA og komið þar fyrir kjarnorkusprengju svo eitthvað sé nú nefnt.

aarhus

Á níu mánuðum voru settar alheimsreglur um siglingavernd sem er ástæða þess að bryggjur eru lokaða mörgum til ama og armæðu.  Þó segja mér kollegar mínir sem sigla á Bandaríkin að það sé nú ekki nánda eins mikið eftirlit hjá þeim en við litla þjóðin í Atlantshafinu höfum.  Það vill nefnilega svo til að kaninn er búinn að koma eftirlitinu á aðrar þjóðir en sjálfa sig og því miður hafa þjóðir heimsins ekki risið upp gegn þessari endalausu frekju bandaríkjamanna. 

Að vísu verð ég að draga aðeins úr þessu því Brasilíumenn brugðust vel við þegar kaninn ákvað að taka myndir og fingraför af öllum þeim sem til landsins koma.  Nú gera brassarnir það bara við bandaríkjamenn að láta þá standa fyrir framan myndavélar og fingrafaralesara.  Þeir höfðu dug og þor í slíkar aðgerðir.  Ég vill þó taka fram að þetta er ekki hinn almenni bandaríkjamaður sem velur þetta heldur stjórnvöld þeirra þannig að ég er að deila á stjórnvöldin þarna fyrir vestan. 

Fyrir nokkrum árum síðan ætlaði ég til Brunei en ég var staddur í Malasíu alveg við landamærin og spurðist því fyrir um hvort ég gæti farið yfir í dagsheimsókn.  Eftir þó nokkurra rannsókn kom niðurstaðan og hún var sú að brúneibúar þyrftu áritun til Íslands og þá gilti það sama hina leiðina.  Einmitt þetta eigum við að gera hér á landi, þ.e. að beita sömu aðgerðum gagnvart þjóðum sem gera okkur skilt að sanna og sína okkur á annan hátt en krafist er til að komast inn í okkar land.

Ég ætla þó að enda þetta á því að segja frá því að ég fór hafnarrölt um höfnina í Árósum fyrir um viku síðan.  Þar kom ég að miklu hliðið sem sagði frá því hvernig öryggismálum væri háttað og ef ég gerði ekki vart við mig þá gæti ég átt á hættu að verða handtekinn og sektaður.  Fyrst var hringt á bjöllu við hliðið en þar svaraði enginn.  Þar við hliðina var símanúmer sem þá átti að hringja í og eftir að hafa reynt það nokkrum sinnum án svörunar þá var ekki hægta ð bíða lengur heldur leggja í víking.  Loks hitti ég mann sem sagði mér að ég skyldi fara niður að öðru hlið sem ég og gerði og þar átti ég að gera vart við mig.  Enginn þar heldur.  Þá sá ég fyrirheitnaskipið í nærri tveggja kílómetra fjarlægð á einni lengstu bryggju sem ég hef gengið eftir hér í Evrópu.  Eftir um hálftíma göngu eftir bryggjunni þar sem ég gekk framhjá tugi skilta sem á stóð að hingað og ekki lengra skyldi haldið komst ég að skipinu sem ég ætlaði um borð í án þess að nokkuð af þeim vörnum sem settar hafa verið upp til að koma í veg fyrir árásir á Bandaríkin virkuðu, settist ég niður í alveg frábæra ýsu í orlí hjá brytanum um borð.

 Takk fyrir góðan mat.

 


Viðurkenning

Um síðustu helgi var ég svo lánsamur að hljóta viðurkenningu fyrir störf mín. Það er alltaf gaman að verða var við að tekið sé eftir því sem vel er gert og ég hef nú reyndar ekki þurft að kvarta undan því. En þegar það er erlendis frá þá er það óneitanlega öðruvísi tilfinning.

Í Dublin á Írlandi er fyrirtæki og skóli sem ber nafnið Sea and Shore Safety Services en þessi aðili er frumkvöðull í öryggismálum sjómanna þar í landi. Það voru hjónin Michael og Susan Langran ásamt dóttur þeirra Claire sem settu fyrirtækið á legg árið 1986. Allt frá árinu 1991 hefur Sea and Shore veitt einstaklingum og/eða samtökum viðurkenningar árlega fyrir störf þeirra í þágu öryggismála sjómanna.

Safety award

Tveir aðilar hljóta þessa viðurkenningu í hvert sinn og að þessu sinni var ég annar þeirra. Viðurkenningin er kennd við Capt. Philip Murphy sem var framkvæmdastjóri fyrirtækisins allt til ársins 2004 er hann lést um aldur fram. Fór afhendingin fram í hádegisverðaboði í Royal St. George Yacht Club í Dun Laoghaire í Dublin föstudaginn 9. nóvember. Það var Angela Murphy, ekkja Philips, og Denis O'Callaghan borgarstjóri í Dublin sem afhentu mér viðurkenninguna sem var áletruð kristalkarafla.

Viðurkenningin var veitt fyrir störf mín sem skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og sem formaður International Association for Safety and Survival Training sem eru alþjóðasamtök öryggis- og sjóbjörgunarskóla. Þar hef ég verið formaður til þriggja ára og varaformaður fjögur ár þar á undan. Þrátt fyrir að ég hafi hloti þessa viðurkenningu þá er þetta ekki síður viðurkenning til minna starfsmanna í Slysavarnaskólanum fyrir þeirra frábæru störf enda er öryggisfræðsla ekki eins manns verk.


Tilefni myndarinnar

Mér datt sí svona í hug að gera örlitla grein fyrir myndinni sem ég hef ákveðið að nota á haus bloggsíðu minnar.  Þessi mynd var tekin í Frakklandi s.l. sumar þar sem við kjarnafjölskyldan vorum á ferð.  Ferðin var farin til að halda upp á stórafmæli mitt og því ráðist í það að leigja sér síkjabát til að eyða einni viku saman. 

Slík ferð verður öllum sem það prófa ógleymanleg.  Ég fór í ársbyrjun á bátasýningu í London þar sem ég rakst á fyrirtæki sem var að leigja báta og tókust með okkur samningar um leigu á bátnum Isabellu.  Við fjölskyldan hittumst síðan öll í París í byrjun júlí og þaðan var svo haldið eftir tveggja daga skoðunarferðir um París og Euro Disney. 

Það tók okkur tvo tíma að keyra frá París og til smábæjar í suðvestri sem hét Margny sur Yonne.  Þar beið Isabella eftir okkur með fullan ísskáp af drykkjarföngum ásamt brauði og ostum en þetta hafði leigusalinn boðist til að setja um borð til okkar. 

Isabella

Ísabella var glæsilegur bátur og afskaplega vel með farinn.  Við sigldum þá næstu sjö daga um bæði skipaskurð sem og ánna Yonne alla leið upp til Auxerre og til baka aftur á stað sem bar nafnið Vermenton.  Ég hef bara sjaldan átt svo frábært ferðalag sem þetta. 

Úr skurðinum

Nú og aftur að myndinni.  Að sjálfsögðu þurfti að mynda hópinn og því var myndavélinni stillt upp og síðan lagður framlengingaásmellari í höndina á yngsta meðliminum honum Birni Kára dóttursyni mínum sem tók síðan myndir í gríð og erg.  Svona er því útkoma tveggja ára snáða á myndavélinni hans afa en að vísu hjálpaði ég aðeins til með því að stilla vélina rétt.

Í skurðinum

Ég hvet alla þá sem einhvern tíma hafa verið að spá í að fara í slíka ferð að láta verða af því sem fyrst.  Þetta var reyndar önnur ferð okkar hóps að litla snáðanum undanskyldum (var ekki fæddur) en í fyrra skiptið fórum við til Bretlands á svokallaða Narrowboats.

En það er nú önnur saga.


Áskorun

Það er nú svo að þegar menn eru að kvarta eins og einn bloggvinur minn hann Doddi þá verð ég að standa að einhverju leiti undir væntingum. 

Ég held að besta umræðuefnið þessa daganna sé veðrið.  Það sagði mér vinur minn á dögunum að ekki væri að undra þótt einhverjir gæfust upp í þessu endalausa roki, rigningu og svartnætti ár eftir ár.  Ég hef þó þá skoðun að það sé svolítið rómantískt að hafa svartnættið þar sem þá sé hægt að hafa kveikt á kertum næstum allan sólarhringinn.

Annars ætla ég að segja meira frá veðrinu enda er ótíðin búin að vera þvílík og annað eins.  Við sem búum hér á Íslandi byggjum mikið upp á vitnesku um veður og skiptir þá miklu máli hvort um er að ræða norðan eða sunnan átt.  Við njótum þess að veðurfréttir eru fluttar af næstum þjóðsagnapersónum en frægðin hefur tekið á sig ýmsar myndir.  Sumir eru kenndir við storma og þykir mörgum það vera flott að kynna slíka veðurfréttamenn.  Sjómenn eru nú ekki beint þeir sem hafa áhuga á að heyra mikið af stormspám.

Nú ber svo við að á að í ákveðnum veðurfréttum eiga stormveðurfregnasagnapersónurnar (vá hvað mér tókst að gera langa setningu) geta ekki með nokkru móti sagt af hvaða átt vindar blása hverju sinni.  Fyrir þá sem einungis heyra í útvarpi það sem aðrir eiga möguleika á að sjá á sjónvarpskjá verða alveg ruglaðir á að heyra "svo fer að hvessa hérna og snjóa, svo snýst vindáttin með kólnandi veðri.  Stormur verður þó áfram sérstaklega fyrir austan".  Hér eru á ferðinni gjörsamlega áttlausir veðurlýsingarmenn og því eru slíkar veðurfréttir með öllu gagnlausar fyrir þá sem ekki eru að horfa á skjáinn. 

Ég ætla því að nota orðin "Vér mótmælum" að ekki séu sagðar vindáttir þegar veðurfregnir eru hafðar til sýnis fyrir þá sem njóta þess að geta horft á sjónvarp.  Sjómenn sem eru á vakt í brú skipa sinna og hafa (sem betur fer) ekki sjónvarp fyrir framan sig heldur hlusta á lýsingar á útvarpsbylgjum geta því ekki með nokkru móti skilið hvað í "andsk...." áttlausi veðurlýsingarmaðurinn er að tala um.

 


Latur við skriftirnar

Kæru lesendur. 

Það er eitthvað svo erfitt að setjast á kvöldin við tölvuna og skrifa hvað sem á hugan leitar hverju sinni.  Það er nú ein af þeim ástæðum sem liggja fyrir því að lítið er að gerast hér á þessari síðu.  En það eru fleiri ástæður s.s. eins og bloggsíðan web.mac.com/iceship en þar er ég að setja inn ýmislegt efni sem ég hef verið að skrifa á undanförnum árum m.a. í Sjómannablaðið Víking. 

Það er einnig ein önnur síða sem er í gangi og það er skipasíðan mín á www. heimsnet.is/iceship.  Að vísu hefur verið lítill tími til að uppfæra hana en það er þó von um að ég komist í það á næstu vikum. 

Annars var ég að lesa það í blaði í dag að Árni Bjarnason forseti FFSÍ sagði að hann hefði aldrei heyrt svo mikið vonleysi meðal íslenskra sjómanna sem nú.  Það er nú ekki nema von þar sem ekki gengur að manna skip í dag með íslendingum.  Nú er svo komið að ekki eru lengur menn í biðröðum við að komast í skiprúm.  Nú verða skipstjórar að passa hvað þeir segja við fólkið en áður gátu þeir látið allt vaða og menn létu það yfir sig ganga.  Allt var það gert til að halda góðu plássi.

Eftir því sem ég hef heyrt þá var eitt kaupskipanna sem til þessa hafa verið mönnuð eingöngu íslenskum skipverjum að fara í sína fyrstu ferð með erlenda háseta að hluta til.  Þetta verð ég að segja að bendi verulega til þess að nú sé ekki langt eftir fyrir íslenska farmenn þar sem ekki verður mögulegt að undirbúa menn undir yfirmannanám s.s. til stýrimannsnám þar sem ekki verður hægt að fá þann nauðsynlega undirbúning í hásetaplássi sem þarf til þess.  Þetta hafa norðmenn þegar upplifað því þar eru orðnir verulegir erfiðleikar.  Auðvitað gleður þetta fyrrum austur Evrópu sem eru í dag að koma í vaxandi mæli inn sem áhafnir á öllum gerðum skipa. 

Þetta þýðir eitt fyrir okkar starfandi sjómenn að þeir verða að fara að aðlaga sig að nýjum siðum og að saltfiskur og skata á laugardögum heyri nú sögunni til.  Í fjölþjóðlegu umhverfi verða allir að sýna tillitsemi og samlyndi.

Nóg í bili


Eru dagblöðin ógnin

Ég var að koma heim nú í þessu eftir afmæli og það fyrsta sem ég sá þegar ég steig út úr leigubílnum heima hjá mér var að Morgunblaðið var komið.  En hvað það var frábært eða þannig.   Ég held að fleiri en ég hafi áhuga á að sjá hvar Mogginn er því í þetta sinn hafði blaðburðaraðillinn ekki haft fyrir því að klára afgreiðslu blaðsins inn um bréfalúguna heldur stóð smá af blaðinu út um hana. 

Vissulega þægindi fyrir þann sem ber blaðið út að rétt að stinga blaðinu í lúguna en það eru fleiri sem gleðjast.  Þeir sem hafa eitthvað illt í hyggju t.d. að fara inn í íbúðir þeirra sem ekki eru heima geta nýtt sér þessa einstöku þjónustu blaðburðarfólks.  Það eina sem þeir þurfa að gera er að fylgjast með hvenær blöðin eru tekin og ef það er aðeins skipt um blað í lúgunni þá er allt eins víst að ekki sé þess að vænta að húsráðsendur séu í bráð að koma heim.

Ég er búinn að vera í miklu stappi við þá aðila sem eru að gefa út dagblöð (sérstaklega fríblöðin) og sem afleiðinu af þeirri áráttu blaðburðarfólks að afhenda ekki blöðin alla leið hef ég meðal annars leitað til lögreglu til að fá út því skorið hvort hæt sé að setja heimili mitt í hættu með blöðum sem ég vill ekki fá. 

Nú ber svo við að blaðið sem ég kaupi í áskrift, Morgunblaðið, hefur borist til mín með sama hætti of fríblöðin sem hafa staðið út um bréfalúguna klukkutímum saman.  Gerist þetta einu sinni enn þá munu engin blöð fá að fara inn um bréfalúguna hjá mér. 

Ég bar út blöð á árunum 1966 til 1972 og þá var okkur uppálagt að láta blöðin alla leið inn um lúguna.  Þá var lagst í kapp um að geta skotið blaðinu eins langt inn eftir forstofunni sem hægt var.  Vissulega voru einhverjar lúgur sem voru svo stífar að, við blaðburðarfókið, gátum orðið fyrir skakkaföllum við að stinga blaði inn um lúgu  það voru nefnilega bréfalúgur til sem virkuðu líkt og músagildrur.og klemmdu litla putta okkar. 

Ef þú býrð við sömu vandamál og ég hef orðið fyrir varðandi að ekki sé hægt að ýta blaðinu alla leið inn á gólf þá hvet ég þig til að krefjast þess að blaðið sem til ykkar er borið, sé ekki sett inn um bréfalúguna, ef þeir aðilar sem eiga að sjá um dreifingarmálin geta ekki stjórnað sínu fólki. 

Þegar verst lét var mér tjáð að blaðburðarfólkið skyldi ekki íslensku og þess vegna væri ástandið svona.  Þvílíkt og annað eins bull.  Ef  þeir sem bera út blöðin tala ekki íslensku þá er bara að kenna því helstu reglum með aðstoð túlka.´

Setjum okkur markið að leita uppi alla hugsanlega þætti sem stuðla að því að farið séí in fyrir lítið.+Afmæli_20070902_359


Velkominn á bloggið

Það fór aldrei svo að ég gæfist ekki upp fyrir því mikla veldi sem bloggið er orðið.  Hef hvorki haft tíma til að fara inn á það og lesa eða þá nennt að setjast við tölvuna og skrifa eitthvað af því sem ég er að hugsa.  Ég ætla þó að gera tilraun með bloggið og sjá hversu vel það á við mig.

 Þar af leiðandi bíð ég sjálfan mig velkominn á blogg.is


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband